Áskoranir haustsins!

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Haustið er fram undan með fullt af nýjum áskorunum. „Þetta verður eitthvað,“ hugsaði ég um daginn, en nýjar áskoranir eru spennandi og þær eru sannarlega til staðar hjá okkur í Aftureldingu þessa dagana.
Auðvitað hef ég þungar áhyggjur af stöðunni, hún er grafalvarleg fjárhagslega hjá okkur, en félags- og mannauðurinn okkar hefur sýnt það undanfarið að við förum létt með að aðlagast nýju umhverfi. Við höfum náð að tækla alla þá bolta sem hefur verið kastað til okkar hvort sem það er að færa æfingar yfir á rafrænt form eða „mastera“ sóttvarnaraðgerðir og allt þar á milli.

Fjárhagslegar áskoranir eru þær áskoranir sem eru okkur erfiðastar þessa dagana og þar liggja mínar áhyggjur. Ljóst er að Afturelding hefur orðið af mörgum mjög stórum fjáröflunum og gríðarlegum tekjumissi það sem af er þessa Covid-ástands og ekki útséð með hvernig endar. Hvernig við leysum það á eftir að koma betur í ljós, en það er alveg á hreinu að allir verða að leggjast á árar þar og eru allar góðar hugmyndir og framlög mjög vel þegin.
Vissulega kom styrkur frá ÍSÍ en ljóst er að sú úthlutun er bara dropi í hafið í samanburði við þann tekjumissi sem við höfum orðið fyrir en sannarlega munar mikið um engu að síður.
En eins og Helgi Björns söng „Það bera sig allir vel,“ það er ekkert annað í boði. Það hefur aldrei verið mikilvægara að halda börnunum okkar við efnið og við í Aftureldingu höfum mikinn metnað fyrir því að halda úti því allra besta íþróttastarfi sem völ er á.
Við bjóðum upp á íþróttir í ellefu greinum og eru stundatöflur haustsins komnar á heimasíðu félagsins afturelding.is og þar held ég að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Keppni í meistaraflokkum er eitthvað sem við horfum ekkert mjög langt fram í tímann með, þar erum við háð því sem sérsamböndin og þríeykið ákveður hverju sinni í samræmi við ástandið. Íslandsmótið í fótbolta gengur ennþá og ljóst er að það mun teygja sig ansi langt inn í haustið og veturinn. Það er augljóst að þegar handboltinn og blakið fara af stað verður krefjandi verkefni hjá okkur miðað við þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi núna að láta þetta allt ganga upp, en til þess að það verði þurfum við öll að vera reiðubúin til þess að sýna mikla tillitssemi og aðlögunarhæfni.
Ég er engu að síður bjartsýn fyrir veturinn og það er von mín að við leggjumst öll á eitt til þess að láta þetta ganga vel og vonandi getum við fljótlega horft til baka til þessa ástands og haldið áfram óheft. Verum góð hvert við annað og hlýðum Víði.

Áfram Afturelding,
Birna Kristín Jónsdóttir
Formaður Aftureldingar.