Fjáröflunarnefnd Aftureldingar í sumarfrí

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Nú er síðustu fjáröflun vetrarins lokið.
Viðtökurnar á þessu skemmtilega verkefni hafa verið frábærar og greinilegt að um þarft verkefni er að ræða.

Næsta fjáröflun verður auglýst á Facebook og í gegnum Sportabler í haust þegar nefndarmeðlimir eru komnir til baka úr sumarfrí.

Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um þetta verkefni, sem fór af stað árið 2020

  • Okkar allra vinsælasta vara hefur verið salernispappír frá Papco og það hefur nú verið verkefni eitt og sér að koma þeim pöntunum inn í vallarhúsið okkar á afhendingardegi. Í síðustu fjáröflun sem var haldin nú í byrjun maí þurftu Papco menn að koma tvær ferðir til okkar.

 

  • Nefndarmeðlimir koma úr fimm mismunandi deildum félagsins sem er afar viðeigandi í ljósi þess að þetta verkefni er hugsað til þess að allir iðkendur í félaginu geti tekið þátt í fjáröflun óháð því hvort að flokkur eða deild sem þau eru skráð í séu í fjáröflunarhug eða ekki.
  • Síðan árið 2020 þegar fjáröflunarnefndin tók til starfa hafa rúmlega 4.000 pantanir farið í gegnum fjáröflunarsíðuna okkar og hafa tæplega 7.000 hlutir hafa verið seldir fyrir um 13.000.000 kr.
  • Forráðamenn og iðkendur geta svo notað söluhagnað í hvað sem þau vilja, hvort sem það er til að létta undir æfingagjöldum, safna upp í ferðir eða æfingafatnað.
það allra besta er við þetta verkefni eru hversu glaðir og þakklátir þátttakendur eru.

Sögurnar sem hægt er að rifja upp eftir veturinn er margar hjá nefndinni. En eftirminnilegast er þó líklega páskasöfnunin, sem var farið af stað í miklu flýti og mögulega með aðeins minna skipulag en aðrar fjáraflanir, sökum hraða. Þegar kom að því að sækja eggin niður í Tunguháls, þá var nokkuð ljóst að tveir bílar væru ekki nóg til þess að ferja þetta allt upp í Mosfellsbæ.

 

 

 

 

 

Við tók tímatökukeppni í Tetris þar sem þeir bílar sem voru mættir á staðinn voru fylltir af súkkulaðieggjum. Þarna var dýrmæt reynsla í Tetris nýtt á nýjum stað. Egginn komu stök en ekki í stærri kössum og því var ekki alveg í boði að bruna upp eftir, því það fór allt á flug í fyrstu beygju.

Fullt af hlátursköstum síðar, smá stressi og fimm fullum bílum seinna  endaði þó þetta eins og best var á kosið – og þegar fyrstu eggin rúlluðu í hlað biðu okkar þolinmóðir iðkendur og foreldrar þeirra eftir eggjunum.

Fjáröflunarnefndin vill þakka fyrir góðan og skemmtilegan vetur og hlakkar til að sjá sem flesta næsta haust.