Hanna Björk Halldórsdóttir hefur verið ráðin íþróttafulltrúi Aftureldingar. Hún var valin úr hópi 20 umsækjenda sem sóttu um starfið. Hanna Björk er Mosfellingur og Aftureldingarmanneskja í húð og hár. Hún æfði bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir með Aftureldingu á sínum yngri árum. Hanna er 32 ára gömul og er búsett í Mosfellsbæ.
Hanna er menntuð með MA gráðu í breytingarstjórnun frá Hawaii Pacific háskólanum og er einnig með BS gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún mun koma til með að stýra íþróttamálum hjá félaginu.
„Það er mikill fengur fyrir okkur í Aftureldingu að fá vel menntaða og reynslumikla manneskju líkt og Hönnu Björk til starfa. Hanna þekkir félagið vel í gegnum sinn íþróttaferil og ég er þess fullviss að með hennar reynslu og menntun þá tekst okkur gera gott starf enn betra hjá Aftureldingu,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Aftureldingar.
„Við viljum alltaf gera betur þegar kemur að þjálfun iðkenda og ekki síst í fræðslu fyrir þjálfara félagsins. Nýtt starf íþróttafulltrúa er liður í þeirri uppbyggingu. Við bjóðum Hönnu hjartanlega velkomna til starfa hjá Aftureldingu.“
„Það eru mikil forréttindi að fá að starfa hjá uppeldisfélaginu og ég er ákaflega þakklát fyrir þetta tækifæri. Það eru spennandi og skemmtilegir tímar framundan og ég hlakka mikið til þess að vera hluti af því frábæra félagi sem Afturelding er,“ segir Hanna Björk
Hanna hefur þegar hafið störf hjá Aftureldingu og er hægt að hafa samband við hana í tölvupósti á hannabjork (hja) afturelding.is