Hugleiðingar fomanns: Hvernig virkjum við Aftureldingarhjartað!

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Hvað er betra en að tilheyra góðum hóp eins og Aftureldingu, vera uppalinn í félaginu, vera fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og finna það alls staðar í samfélaginu þegar vel gengur.

Ég hitti nokkra menn mér fróðari í þessum málum á fótboltavellinum á dögunum og við fórum að ræða saman um það af hverju ungu leikmennirnir okkar yfirgefa okkur eins og raun ber vitni. Þá má ekki misskilja að auðvitað samgleðjumst við okkar fólki þegar vel gengur og oft á tíðum er bara tíminn kominn til að leita á önnur mið og finna verkefni við hæfi. Það sem vekur umhugsun mína er hins vegar af hverju leikmenn eru að fara of snemma.

Það hlýtur að vera merki um frábært starf í yngri flokkunum hvað leikmenn okkar eru eftirsóttir.

Ef við tökum bara fótboltann þá eigum við ansi marga leikmenn sem spila í efstu deild og erlendis. Mér telst til með aðstoð góðs fólks að þetta séu 12 stelpur og 15 strákar.

  • Það er staðreynd að við erum með mikið úrval frábærra þjálfara.
  • Aðstaðan okkar er orðin nokkuð góð og á bara eftir að batna.
  • Ungu leikmennirnir okkar hafa fengið traust til þess að sanna sig.

Ég brenn fyrir því að við tökum höndum saman og eigum opið og hreinskilið samtal um það hvernig við getum lagað þessa þróun og óska eftir sjálfboðaliðum til þess að taka þátt í þeirri vinnu. Mig langar að hvetja þá sem hafa áhuga á að setja sig í sambandi við mig eða íþróttafulltrúa félagsins hana Hönnu Björk.

Góð kveðja,

Birna Kristín Jónsdóttir

Formaður Aftureldingar