Í morgun vorum verðlaun íþróttamanns og íþróttakonu Aftureldingar 2020 afhent.
Viðburðurinn var öllu látlausari í ár en undanfarin ár, en við fengum til okkar það íþróttafólk sem stendur fremst meðal jafninga. Viðburðinum var streymt beint frá facebook og hægt er að nálgast útsendinguna HÉR.
Íþróttamaður Aftureldingar 2020 var valinn Guðmundur Árni Ólafsson handknattleiksmaður.
Guðmundur Árni lék mjög vel á seinni hluta síðastatímabils, var hann markahæsti leikmaður Aftureldingar og endaði hann sem næst markahæsti leikmaður Olís deildarinnar. Hann var lykilmaður liðsins sem endaði í 3. sæti Olís deildarinnar. Hann hefur einnig leikið mjög vel á þessu tímabili og er liðið núna á toppnum í Olís deild karla.
Hann komst í 35 manna landsliðhóp fyrir HM í Egyptalandi sem hefst núna í janúar.
Guðmundur Árni er mikill leiðtogi innan- sem utanvallar. Hann æfir vel, leggur mikið á sig og er frábær fyrirmynd fyrir okkar ungu og efnilegu leikmenn.
Íþróttakona Aftureldingar 2020 var valin Sesselja Líf Valgeirsdóttir
Sesselja Líf Valgeirsdóttir er knattspyrnukona Aftureldingar. Sesselja er uppalinn í Mosfellsbænum og lék með yngri flokkum félagsins áður en hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Aftureldingu árið 2010, aðeins 16 ára gömul. Sesselía á að baki um 70 leiki í meistaraflokki fyrir Aftureldingu en á ferlinum á hún að baki yfir 160 leiki með Aftureldingu, Þrótti og ÍBV.
Sesselja kom aftur heim fyrir síðasta tímabil frá Vestmannaeyjum og var fyrirliði liðsins í Lengjudeildinni í sumar og var ein af mikilvægustu leikmönnum liðsins, en liðið endaði í 4.sæti Lengjudeildar með 28 stig.
Sesselja er mikil keppnismanneskja sem leggur sig fram í öllum verkefnum fyrir félagið sitt, hvort sem það er æfing eða leikur. Hún er mikill leiðtogi á velli og frábær liðsfélagi. Hún er einnig góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og verður gaman að fylgjast með henni á vellinum næsta sumar.
Önnur verðlaun sem voru veitt fyrir árið 2020 voru eftirfarandi:
Hópabikar UMSK
2. flokkur kvenna, blakdeild.
Bikarmeistarar 2020 og deildarmeistarar í 1.deild kvenna 2020
Stelpurnar í 2. flokki sóttu allar æfingar með úrvalsdeild kvenna og meistaraflokknum og tóku þátt í öllum þeirra leikjum einnig. Stelpurnar spiluðu því yfir 50 leiki á tímabilinu þrátt fyrir að ekki náðist að klára úrvalsdeild kvenna og bikarkeppni fullorðinna en þeir leikir hefðu bæst við ef ekki hefði komið til Covid19.
Hópurinn æfði 5-6 sinnum í viku auk styrktarþjálfunnar. Auk þess tóku þær fullan þátt í öllum fjáröflunum á vegum blakdeildarinnar. Þessi hópur hefur æft og keppt saman í mörg ár og sýnt mikinn metnað og samstöða og eiga þessa viðurkenningu skilið.
Allar voru þær valdar í úrtökuæfingar hjá A -landsliði Íslands fyrir síðasta landsliðsverkefni
Til hamingju stelpur
Þjálfari Aftureldingar 2020
Alexander Sigurðsson er fyrstur til að fá verðlaun þjálfari ársins.
Alexander eða Alli, einsog hann er kallaður í daglegu tali er þjálfari fimleikadeildar Aftureldingar. Hann hefur einstaka leiðtogahæfileika sem nýtast honum í þjálfun og starfi yfirþjálfara deildarinnar. Hann hefur frábært lag á iðkendum og nær að kalla það allra besta fram í hverjum og einum.
Sjálfur hefur hann mikla hæfni í fimleikum og er því frábær fyrirmynd fyrir fimleikaiðkendur í Mosfellsbæ, og í raun allt okkar íþróttafólk og aðra þjálfara Aftueldingar.
Alexander er uppalinn hjá Aftureldingu en þar hóf hann að æfa í drengjahóp árið 2011. Í dag æfir hann hjá Gerplu, og er einn af fremstu fimleikamönnum Íslands. Þrátt fyrir miklar og tímafrekar æfingar hjá öðru félagi hefur Alli okkar haldið tryggð við uppeldisfélagið sitt með frábæru og uppbyggjandi starfi.
Alli tók sér frí eftir áramót 2020 og gerði tilraun til að fara í heimsreisu, því miður þurfti hann að koma heim fyrr vegna faraldursins en kom þá inn í þjálfarastarfið aftur. Þar hefur hannn verið fremstur í flokki æfinga í heimaæfingakerfinu sem við notumst við. Iðkendur hans hafa varla misst úr æfingu, þó það hafi verið með öðru sniði nú í lokunum vegna COVID19. Hann er frábær fyrirmynd fyrir yngri og óreyndari fimleikaþjálfara sem fylgdu honum fast á meðan á lokun stóð.
Alli okkar er einstaklega glaðlyndur, ljúfur og skemmtilegur þjálfari og einstaklingur sem er alltaf boðinn og búinn að aðstoða, hvort sem það eru iðkendur, þjálfarar eða annað starfsfólk.
Vinnuþjarkur 2020
Eygerður Helgadóttir
Eyja okkar er formaður fimleikadeildar, en hún hefur verið í stjórn deildarinnar í fjölda ára og formaður deildarinnar í rúm tvö ár. Eyja er ekki bara hluti af filmleikadeildinni heldur öllu félaginu, en hún lék knattspyrnu með kvennaliði Aftureldingar hér á árum áður. Og spilar nú blak í Afutreldingu. Mikil félagskona.
Fimleikadeild Aftureldingar hefur verið í örum vexti undanfarin ár þar sem Eyja hefur staðið vaktina og aðstoðað starfsmenn deildarinnar og unnið með stjórn deildarinnar við hin ýmsu verkefni.
Eyja er alltaf boðin og búin að aðstoða þegar þess þarf, hún er frábær sjálfboðaliði sem þjálfara, foreldrar og starfsfólk Aftureldingar geta alltaf leitað til.
Takk Eyja og allir sjálfboðaliðarnir félagsins.
Starfsbikar UMFÍ
Stjórn körfuknattleiksdeildar Aftureldingar
Stjórn körfuknattleiksdeldar hefur unnið ötul starf undanfarni ár og hefur deildin stækkað mikið undanfarin ár. Nú telur deildin rúmlega 100 iðkendur og er með barna- og unglingastarf fyrir börn í 1-10 bekk. Að auki hafa nokkrir fimm ára sýnt áhuga og æfa þeir með 1 og 2. Bekk.
Nú í haust fékk deildin styrk til þess að reyna byggja upp stúlknastarfið betur og hefur það slegið í gegn hjá stelpum í bænum. En nú stunda um 20 stúlkur körfuknattleik og æfa þær saman 2-4 sinnum í viku. Áætlun var að fara með stelpurnar á mót nú í vetur, en það hefur ekki gengið vegna Covid.
Í stjórn Körfuknattleiksdeildar sitja
Ingvar Ormarsson
Emil Viðar Eyþórsson
Bjarni Þór Ólafsson
Kristinn Guðjónsson
Hallur Þór Halldórsson
Þórarinn Örn Andrésson
Hvatarverðlaun Aðalstjórnar
Stjórn sunddeild Aftureldingar
Meðlimir í stjórn sunddeildarinnar ásamt þjálfarateymi hafa fært deildina nær sínu gamla horfi eftir erfið ár. Stjórnin er samstíga í verkefnum og eru allir í stjórninni sammála um markmiðin og leiðina til að ná þeim.
Deildin hefur haldið úti sundskóla sem og skriðsundnámskeiði fullorðinna þangað til Covid skall á. Gert er ráð fyrir því að þau námskeið hefjist aftur um leið og takmarkanir verða teknar af.
Sunddeild Aftureldingar er með stór plön um að endurvekja fullorðinsstarfið á næstu misserum.
Aðalstjórn þakkar sunddeildinni fyrir frábært ár og hvetur þau til að halda áfram upp á við.
Í stjórn sunddeildar sitja:
Berglind Dís Guðmundsdóttir
Sigurður Rúnar
Hilmar Smári Jónsson
Sigurlaug María
Hallur Þór Halldórsson
Þóra Margrét Bech
Í dag nýtti félagið einnig tækifærið og þakkaði Barion fyrir frábært samstarf, mikla gleði og frábærar lausnir þegar kemur að fjáröflunum.