Kæru félagar,
þetta er aldeilis búið að vera krefjandi en lærdómsríkt ár hjá okkur í Aftureldingu sem og í heiminum öllum. Við höfum þurft að bregðast við ýmsum áskorunum og ég verð að hrósa þjálfurunum okkar sem hafa verið ótrúlega hugmyndaríkir og duglegir að mæta nýjum þörfum og svo sannarlega tilbúnir til þess að gera þetta auka og hugsa út fyrir rammann. Það er eitt sem víst er að við erum vel mönnuð í Aftureldingu.
Við fögnuðum því svo sannarlega á dögunum þegar tilslakanir voru gerðar í sóttvarnaraðgerðum þannig að meistaraflokkarnir okkar gátu farið að æfa aftur, en betur má ef duga skal. Við í aðalstjórn höfum haft miklar áhyggjur af okkar viðkvæmasta hópi iðkenda sem eru á aldrinum 16 – 20 ára og hörmum það mjög að þau séu ekki inni í þeim hópi sem má fara að æfa með sömu takmörkunum og aðrir. Þetta er sá hópur sem gríðarlega mikilvægt er að halda utan um og höfum við lýst áhyggjum okkar og átt mörg samtöl við hagaðila í sömu stöðu sem og við UMSK og UMFÍ, sem hafa komið þeim áfram til ÍSÍ. Í kjölfarið tóku íþróttahéröðin sig saman og sendu áskorun til stjórnvalda sem má lesa HÉR. En þar eru stjórnvöld hvött til þess að endurskoða afstöðu sína til þessa viðkvæma hóps í þeim afléttingum sóttvarnaraðgerða sem þegar eru samþykktar.
Þessa dagana erum við að telja niður í tilnefningum til íþróttakonu og íþróttamanns Aftureldingar og ég hvet ykkur til að fylgjast vel með, á gamlársdag munum við svo krýna þau við fámenna athöfn að Varmá. Þessi athöfn verður betur auglýst síðar.
Ég vona að þið farið öll varlega og eigið yndislega jólahátíð með fólkinu ykkar. Bestu þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og ég hef fulla trú á að við komum vel undirbúin fyrir árið 2021 og það verði gjöfult fyrir okkur öll í Aftureldingu.
Gleðileg jól,
Birna Kristín Jónsdóttir,
Formaður Aftureldingar