Ungmennafélagið Afturelding mun ekki endurnýja samning sinn við Errea en félagið hefur leikið í keppnistreyjum frá fyrirtækinu síðan 2010. Núverandi samningur við Errea rennur út 30. september næstkomandi.
Í vetur var óskað eftir tilboðum í búninga félagsins og skiluðu fimm fyrirtæki inn marktækum tilboðum. Búninganefnd Aftureldingar mælti með að gengið yrði til viðræðna við JAKO og var sú ákvörðun samþykkt fyrr í sumar í aðalstjórn félagsins. Samningaviðræður við JAKO eru komnar vel á veg og er gert ráð fyrir að ganga frá samningi á næstu vikum. Samningurinn tekur gildi 1. október til næstu fjögurra ára.
Aðalstjórn Aftureldingar vill koma á framfæri þakklæti til Errea fyrir ánægjulegt samstarf undanfarin ár.