Í vikunni fer fram lokafrágangur á nýju gólfi sem lagt hefur verið í stærri íþróttasalinn að Varmá. Gólfið verður tekið í notkun núna um helgina. Lagt var gegnheilt parket frá Agli Árnasyni sem lítur ákaflega vel út og erum við hjá Aftureldingu mjög spennt að hefja æfingar og keppni á nýju gólfi sem verður bylting fyrir okkar íþróttastarf.
Stúkan að Varmá hefur einnig verið tekin í gegn en sérfræðingar frá Bretlandi fóru fyrir stúkuna og lagfærðu.
Næsta verkefni er að skipta um lýsingu í salnum og fara yfir í LED lýsingu. Sú vinna hefst í næstu viku en nýrri lýsingu fylgja margir skemmtilegir möguleikar. Auk þess er LED lýsing mun hagkvæmari í rekstri.
Við hjá Aftureldingu erum ákaflega þakklát Mosfellsbær fyrir samstarfið í þessu verkefni. Einnig þökkum við verktökum sem hafa komið að þessari vinnu fyrir gott starf. Sérstakt hrós fær Handknattleiksdeild Aftureldingar sem tók að sér að rífa og fjarlægja fyrra gólf.
Nýtt gólf er bylting fyrir íþróttasalinn sem um leið verður mun bjartari og fallegri.
Sjáumst að Varmá í vetur!