Afturelding í 110 ár

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum 110 árum og þegar ég skoða söguna og fletti Dagrenningi, aldarsögu félagsins fyllist ég fyrst og fremst stolti yfir að fá að taka þátt í og að móta sögu þessa merkilega félags. Það var framsækinn hópur fyrir 110 árum sem kaus sinn fyrsta formann konu, Guðrúnu Björnsdóttur 19 ára heimasætu í Grafarholti.  Í þá daga var fundað á sunnudögum af því að það voru þeir dagar sem menn áttu frí til þess að sinna sjálfboðaliðastarfi, það mundi líklega ekki duga til í dag á þeim hraða sem þjóðfélagið er. Það er gæfa okkar í Aftureldingu að hafa eins öflugan hóp og raun ber vitni sem kemur að starfinu enda fjölbreytt með eindæmum með 11 deildir starfandi og ansi margar hendur sem koma þar að.

Sjálfboðaliðinn er einmitt sá sem heldur félaginu okkar gangandi og er mér efst í huga þakklæti til allra þeirra sem hafa komið að og mótað starfið í þessi 110 ár, starfsmenn, iðkendur, stjórnarmenn, foreldrar, stuðningsmenn, velunnarar og þjálfarar, þið eruð félagsauðurinn okkar og það er ykkur að þakka að við erum hér enn. Ekki má gleyma Mosfellsbæ sem útvegar okkur aðstöðuna, án hennar væri starfið ekki fjölbreytt.

Framtíðarskipulag Varmársvæðisins

Starfið í Aftureldingu í dag er öflugt og metnaðarfullt og framtíðin er björt. Það segir sig sjálft að þegar svo margar deildir eru starfandi er mikið og krefjandi verkefni að allir hafi aðstöðu við hæfi og að öllum deildum og allir flokkar fái úthlutað æfingatíma sem hentar. Margt hefur verið gert að hálfu Mosfellsbæjar síðustu misseri í aðstöðumálum okkar í Aftureldingu og ég get lofað ykkur því að það verður spennandi að fylgjast með á næstunni í þeim málum en samráðshópur sem samanstendur af fulltrúum Aftureldingar og Mosfellsbæjar hafa mikinn metnað í að gera framtíðarskipulag Varmársvæðisins  skýrt þannig að markvisst verður unnið að viðhaldi og uppbyggingu næstu árin. Með sameiginlegri framtíðarsýn og skýrum markmiðum verður vinnan mun markvissari og skemmtilegt að sjá draumana verða að veruleika.

Unga fólkið blómstrar

Það er unun að fylgjast með unga fólkinu okkar blómstra hvert á sínu sviði og gaman að geta keyrt saman svona öflugt starf bæði með uppeldis- og afreksstefnu að leiðarljósi. Það er líka ómetanlegt fyrir ungu iðkendurna okkar að fá að fylgjast með ykkur sem eruð lengra komin  og eruð í meistaraflokkum og jafnvel landsliðum, þið eruð stanslaust undir nálarauga þeirra yngri enda eruð þið þeirra fyrirmyndir.

Mig langar enn og aftur að nota tækifærið og hvetja ykkur til að mæta á leiki og viðburði hjá félaginu, það er nóg pláss og svo er það bara svo gaman að koma saman og hvetja liðið sitt.

Meðal markmiða félagsins í upphafi var að auka samhug og samheldni, ég tel að við uppfyllum það markmið enn þann dag í dag en það er svo ótrúlega gaman þegar vel gengur í Aftureldingu þá hefur það svo góð samfélagsleg áhrif og smitar gleði út í bæjarfélagið okkar. Munum bara að þó að við eigum allar þessar deildir þá erum við öll Afturelding og saman erum við sterkari.

Áfram Afturelding,

Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar.