Fjölsóttur íbúafundur um íþróttamál

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Ungmennafélagið Afturelding stóð fyrir íbúafundi um íþróttamál í Hlégarði í gærkvöld. Fundurinn var vel sóttur en á þriðja hundrað manns mættu í Hlégarð til að fræðast um stöðu íþrótta- og aðstöðumála hjá Aftureldingu. Fulltrúar frá öllum framboðum til sveitastjórnarkosinga í Mosfellsbæ tóku þátt í fundinum og var fundinum stýrt af Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ.

Fulltrúar 10 deilda Aftureldingar héldu erindi og fóru yfir stöðu mála hjá félaginu. Í stuttu máli er margt mjög jákvætt í starfsemi Aftureldingar en víða er uppsöfnuð þörf á viðhaldi mannvirkja að Varmá. Skortur á félagsaðstöðu stendur félaginu verulega fyrir þrifum og kom það fram í erindum allra deilda. Afturelding er eitt fárra íþróttafélaga á landinu  sem ekki hefur félagsaðstöðu. Er það forgangsmál hjá félaginu að úr þessu verði bætt. Bæjaryfirvöld voru hvött til að bæta klefamál félagsins sem eru í slæmu horfi og einnig að klára framkvæmdir við fimleikahús sem enn er óklárað að hluta þrátt fyrir að hafa verið tekið í notkun árið 2014.

Jafnframt kom fram á fundinum mikilvægi þess að halda áfram uppbyggingu á íþróttamannvirkjum fyrir knattspyrnudeild til að fullnægja þörfum deildarinnar sem er sú fjölmennasta í félaginu með tæplega 500 iðkendur.

Leikmenn meistaraflokka í blaki og handbolta sendu áskorun til allra framboða um að ráðast tafarlaust í endurnýjun á gólfefnum að Varmá. Einar Ingi Hrafnsson og Velina Apostolova lásu upp yfirlýsingu leikmanna og skorað á aðgerðir. Vel var tekið í erindi leikmanna og bindur félagið vonir við að hægt verði að ráðast í aðgerðir sem fyrst þegar úttekt á stöðu gólfefna liggur fyrir í lok þessa mánaðar.

Við hjá Aftureldingum viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í fundinum, frambjóðendum, Aftureldingarfólki og Mosfellsingum. Það er einlæg von okkar að fundur sem þessi verði til þess að hægt verði að lyfta grettistaki á aðstöðumálum félagsins.

Fylgiskjöl:
Íbúafundur um Íþróttamál – Kynning
Áskorun leikmanna um endurnýjun á gólfefnum