Jákvæð þróun að Varmá

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar, skrifar:

Árið 2018 leyfi ég mér að segja að sé búið að vera farsælt ár hjá Aftureldingu. Margt gott hefur áunnist í félaginu okkar, árangur innan allra þeirra 11 deilda sem við höfum starfandi er gríðarlegur.
Við höfum unnið marga titla og líka stundum verið nálægt því að vinna titla. Enn fremur hefur iðkendum okkar fjölgað töluvert á árinu og alltaf bætast við nýir sjálfboðaliðar því það segir sig sjálft að það þarf margar hendur til að vinna það öfluga uppeldis- og afreksstarf sem fer fram í fjölgreinafélagi eins og Aftureldingu með tæplega 1.300 iðkendur.
Við getum verið stolt af því í Aftureldingu hversu margir leggja hönd á plóg, en rannsóknir sýna afgerandi að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur ýmis jákvæð áhrif á líðan og hegðun barna og ungmenna. Þau sem taka þátt í formlegu íþróttastarfi fá útrás fyrir hreyfiþörf sína og eru líklegri til að sleppa notkun á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum. Jafnframt eru þau líklegri til að vera heilsuhraustari og líða betur andlega, líkamlega og félagslega en þau börn sem ekki taka þátt í starfinu.

Uppbygging hafin á fjölnota íþróttahúsi
Samhliða fjölgun iðkenda þarf meira rými til æfinga og búnaður og mannvirki láta á sjá eðli málsins samkvæmt. Það er því mjög ánægjulegt að geta sagt frá þeirri miklu uppbyggingu og viðhaldi sem nú er í gangi og er fram undan.
Í haust var byrjað á byggingu fjölnota íþróttahúss sem verður mikill munur fyrir knattspyrnudeild en þar hefur iðkendum fjölgað um tæp 20% á árinu. Aðstaðan okkar var löngu sprungin og bætast þarna við þeir fermetrar af æfingasvæði sem hefur vantað. Ekki skemmir fyrir að geta tekið eina og eina æfingu innanhúss þó að fyrsta val knattspyrnufólks leyfi ég mér að fullyrða sé alltaf að æfa utandyra.
Báðir meistaraflokkarnir okkar í knattspyrnu munu spila í næstefstu deild næsta tímabil. Ljóst er að við notum gervigrasvöllinn ekki óbreyttan og á dögunum funduðum við fulltrúar Aftureldingar og Mosfellsbæjar með KSÍ og eru þau atriði sem þar þarf að laga komin í ferli. Inni í íþróttahúsinu að Varmá er um þessar mundir verið að skipta út dúk á gólfinu í sal 3 sem verður mikil bragarbót fyrir þær greinar sem þar æfa og keppa.
Í vor er svo fyrirhugað að skipta út gólfinu í sölum 1 og 2 þegar skólum og vetrarstarfi lýkur. Búningsaðstaðan þarf að fylgja með þar sem mikil fjölgun hefur orðið í félaginu síðan húsið var byggt og stendur yfir sameiginleg vinna Mosfellsbæjar og Aftureldingar að finna út hver þörfin er og koma með lausnir þar á.

Sofnum ekki á verðinum
Ljóst er að mörgu hefur verið hrint í framkvæmd og enn önnur verkefni komin í farveg. Við þurfum að vera vakandi yfir því að þessum viðhaldsverkefnum lýkur aldrei. Við þurfum stöðugt að vinna að því að efla starfið okkar og styrkja aðstöðuna ekki síst vegna þess að kröfurnar breytast líka mjög hratt. Völlur sem kannski þótti einn af þeim bestu fyrir 10 árum síðan er úreltur í dag.
Þetta er hluti af starfinu og þetta er það áhugaverða við starf íþróttafélaganna þ.e. þessar sífelldu breytingar og framfarir. Við í aðalstjórn og bæjaryfirvöld þurfum að passa okkur að sofna ekki á verðinum um hagsmuni þess öfluga starfs sem unnið er í félaginu okkar.
Milli jóla og nýárs verður svo einn skemmtilegasti viðburður félagsins en þá verðlaunum við framúrskarandi iðkendur og sjálfboðaliða. Það er alltaf jákvætt og skemmtilegt að sjá og upplifa svo magnaða uppskeru.
Mig langar að þakka ykkur öllum samstarfið á árinu og hlakka til framhaldsins.

Með jólakveðju,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar

Greinin birt í Mosfellingi þann 20. desember 2018.