Nýtt gólf lagt í eldri íþróttasal að Varmá

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Framkvæmdir við að leggja nýtt gólf í eldri íþróttasal að Varmá hófust þann 14. desember síðastliðinn. Framkvæmdir fara vel af stað og á þeim að vera lokið í síðasta lagi þann 13. janúar næstkomandi. Á. Óskarsson sér um verkið fyrir hönd Mosfellsbæjar og Aftureldingar.

Nýja íþróttagólfið er af gerðinni SYDNEY 20 og kemur frá þýska fyrirtækinu Hamberger Flooring. Sjá má frekari upplýsingar um gólfið á heimasíðu framleiðenda: www.haro-sports.com

Framkvæmdirnar hafa óhjákvæmilega áhrif á íþróttastarf hér að Varmá og má búast við að rask verði á íþróttastarfi Aftureldingar er snýr að æfingatímum sem tilheyra þessum íþróttasal. Þessi tímasetning var ákveðin með það að leiðarljósi að reyna að lágmarka það rask sem gæti orðið á æfingatímum með tilliti til jólafrí o.s.frv.

Við vonum að iðkendur, forráðamenn, stjórnendur deilda og sjálfboðaliðar sýni þessu þolinmæði. Starfsfólk Aftureldingar mun reyna af bestu getu að leysa úr öllum flækjum sem þessi framkvæmd kann að valda starfi félagsins.

Mosfellsbær hefur jafnframt sett á dagskrá að skipta um gólf í stærri íþróttasal að Varmá. Eru það mjög ánægjuleg tíðindi og verður mikil lyftistöng fyrir íþróttastarfið að Varmá að fá ný gólf í báða þessa íþróttasali. Framvæmd í stærri íþróttasal (salur 1-2) fer fram í sumar og mun því ekki hafa teljandi áhrif á íþróttastarfið hér að Varmá.

Framkvæmdir hafa farið vel að stað að Varmá. Lagt er flatfjaðrandi efni beint ofan á fyrri dúk. Plastfilma er lögð yfir og svo séframleiddar samtengjanlegar plötur úr krossvið. Að lokum er Gerflor yfirborðsefni lagt yfir. Liturinn á dúknum verður ljósblár og leysi af hólmi græna litinn sem hefur verið í salnum um áratugaskeið. Salurinn verður merktur upp með hefðbundnum hætti og verða línur fyrir allar helstu íþróttagreinar. Ein breyting verður á því keppnisblakvöllurinn verður merkur upp með áberandi hætti en áður hefur verið.