Pistill frá formanni Aftureldingar

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Nú er haustið að sigla inn og eflaust flestir foreldrar og börn sem taka því fagnandi að allt fellur í fast form og rútínu. Eitt af því sem einkennir komu haustsins hjá okkur í Mosfellsbæ er bæjarhátíðin Í túninu heima. Þetta er frábær viðburður í alla staði og tekur Afturelding þátt í bæjarhátíðinni af fullum krafti í gegnum marga viðburði.

Við byrjuðum á að perla með Krafti sem var frábært verkefni en Mosfellingar perluðu 1025 armbönd og líklega hafa verið um 350 manns sem komu við í Hlégarði. Við slóum út Valsmenn og næstum því ÍR í afköstum en ef við hefðum vitað að þetta væri keppni – þá hefðum við nú bætt í.

Fellahringurinn að festa sig í sessi
Nýjasta deildin okkar kemur inn í félagið af miklum krafti en hjóladeildin ásamt aðstandendum Fellahringsins stóðu fyrir keppni í Fellahringnum í annað skipti nú í ár. Keppt var í Litla og Stóra Fellahringnum sem eru 15 og 29 km. Þátttaka var mjög góð en 138 keppendur tóku þátt. Svona viðburð er erfitt að halda án góðra styrktaraðila og vilja aðstandendur keppninnar koma þakklæti á framfæri við TRI, Örninn, Altís, Markið, Höfðakaffi, Kría Cycles, Rafglóð ehf, SENSA reiðhjól, Elektrus hef, Fasteignasölu Mosfellsbæjar, Sidra og Saffran.

Sunddeildin var okkar andlit í Kvosinni með sölubás sem fékk góðar viðtökur. Afturelding var með kynningu á deildum félagsins inni í Varmá þar sem margir kíktu við og karatedeildin hélt opna æfingu þar sem um 20 börn komu og tóku þátt.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu bauð gestum frítt á mikilvægan leik í 2. deild þar sem þeir unnu Huginn 4-0 og eru á toppi deildarinnar eftir leikinn. Pallaballið var svo á sínum stað en meistaraflokkarnir í knattspyrnu halda það. Ballið er ávalt vel sótt og voru um 900 manns mættir til að skemmta sér.

Þátttökumet í Weetos-mótinu
Stærsti viðburðurinn á vegum Aftureldingar var Weetos mótið, en þar var keppt í knattspyrnu í 6. og 7. flokki drengja og stúlkna. Metþátttaka var í mótinu en mótið er annað af tveimur stærstu fjáröflunum BUR í knattspyrnu ásamt Liverpoolskólanum. 1300 þátttakendur í 219 liðum tóku þátt sem spiluðu samtals 876 leiki á 12 völlum. Mótið þótti sérlega vel heppnað og voru styrktaraðilar okkar frá Weetos alsæl með okkur og ekki skemmdi veðrið fyrir sem var náttúrulega einstakt í ár.

Eins og sjá má á þessari upptalningu eru þetta ansi margir sjálfboðaliðar sem leggja sitt af mörkum og við erum ótrúlega stolt af því í Aftureldingu að reka félagið okkar með 11 deildum með öllu þessu frábæra fólki sem er tilbúið að gefa tímann sinn.

Ég er mjög bjartsýn á framtíð Aftureldingar. Framundan eru endurbætur á aðstöðumálum í félaginu. Fyrirhugað knatthús mun hreinlega bjarga því að knattspyrnudeildin muni þurfa að setja inn fjöldatakmarkanir í stærstu flokkana en mikil aukning hefur orðið á iðkendafjölda í knattspyrnu á undanförnum árum. Framundan eru spennandi tímar og förum við hjá Aftureldingu með eftirvæntingu inn í nýjan starfsvetur.

Áfram Afturelding!
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður