Pistill frá formanni: Ótrúleg samstaða!

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Góðan og blessaðan daginn kæru vinir í Aftureldingu nær og fjær.

Þetta eru aldeilis einstakir tímar sem við erum að upplifa núna og við eigum eflaust öll eftir að muna þennan tíma svo lengi sem við lifum. Ég er ótrúlega stolt af félaginu okkar hvernig við höfum brugðist við, þjálfarar margir hverjir eru gríðarlega metnaðarfullir og hvetjandi að senda iðkendum heimaæfingar og „Áskorun dagsins“ í samstarfi við Jako virkilega slegið í gegn. Það er á svona tímum sem við sjáum samstöðuna og úr hverju við erum gerð.

Auðvitað er misauðvelt eftir greinum að gera heimaæfingar en allt sem heldur iðkendum við efnið og í formi hjálpar. Ég held að mörgu leiti er þetta ástand að fá suma hverja til þess að hugsa meira um íþróttina sína en áður, það kemur auðvitað aldrei neitt í staðin fyrir það að mæta á æfingu og hitta félagana og æfa undir handleiðslu þjálfarans.

Margir iðkendur fara að hugsa út fyrir rammann og finna eigin leiðir til æfinga og eru kannski að hugsa meira um æfingar og sportið en annars. Ég hef ekki áhyggjur af iðkendunum okkar sem eru áhugasöm og finna sér lausnir, ég hef áhyggjur af hinum sem eru meira með út af félagsskapnum og eru jafnvel nýlega byrjuð að æfa, það verður verkefni hjá okkur sem stýrum klúbbnum okkar að vanda okkur við að fá alla aftur til baka og við erum strax farin að hugsa næstu skref þar. Við verðum tilbúin þegar kallið kemur.

Mikil óvissa er ennþá tengd meistaraflokkunum okkar hvernig mótin hjá þeim munu spilast og ekki getum við æft með bolta. En mikið er gaman að sjá þessar flottu fyrirmyndir sem við eigum þar vera til dæmis úti að hlaupa og halda sér í formi.

Það sem veldur mér mestum áhyggjum þessa dagana er rekstrarumhverfið okkar. Það er búið að vera erfitt og þessi staða sem upp er komin hjálpar ekki til. Þetta ástand tekur í pyngjuna hjá öllum en við verðum að leggjast á eitt um að gera okkar besta og tryggja að við getum haldið ótrauð áfram. Það mun reyna á samstöðu okkar allra.

Að lokum vil ég minna fólk á að það er í gildi samkomubann og við verðum að hlýða því eins og á fótboltavellinum að ekki séu fleiri en 20 mættir, það eru engar skipulagðar æfingar í gangi. Það væri sorlegt að þurfa að loka svæðinu en það verður gert ef ekki er hægt að virða mörkin.

Það mun birta til og vorið og sumarið eru handan við hornið, það verður frábært að sjá allt þjóðfélagið snúast í gang aftur og ekki síst Aftureldingu.

Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir
Formaður Aftureldingar.