Samningur við Erindi

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Erindi – samtök um samskipti og skólamál og Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellsbæ hafa gert með sér samstarfssamning þess efnis að Erindi veiti félaginu fræðslu um samskiptamál barna og unglinga og mögulegan samskiptavanda sem upp getur komið.

Stjórn Aftureldingar ákvað að leggja áherslu á góð samskipti og líðan barna og unglinga í öllu starfi félagsins. Með samningnum markar Afturelding sér skýra stefnu í samskipta- og eineltismálum og verður fyrst íþróttafélaga til að ganga til samstarfs við Erindi.

Samstarfssamningnum fylgir eineltisáætlun Erindis sem félagið fylgir eftir. Erindi mun bjóða upp á regluleg námskeið og fræðslu fyrir þjálfara til að tryggja að þeir séu meðvitaðir um samskiptamál og læri leiðir til að greina vandamálin og bregðast við þeim.

Hjá Erindi starfa ráðgjafar á sviði náms- og starfsráðgjafar, fjölskylduráðgjafar, uppeldis- og menntunarfræðingar og lýðheilsufræðingar. Innan samtakanna er mikil þekking á eineltismálum og öðrum vandamálum í samskiptum barna. Samtökin bjóða upp á ráðgjöf fyrir börn og fjölskyldur þeirra, starfsfólk skóla og aðra sem vinna með börnum.

Með samningi þessum hefur Afturelding tryggt iðkendum sínum, foreldrum þeirra og þjálfurum aðgang að fagfólki sem er til taks ef upp koma samskiptavandamál innan félagsins.