Einar og Matthías sæmdir gullmerki Aftureldingar

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Hátíðaraðalfundur Aftureldingar fór fram í Hlégarði í gær, 11. apríl,  í tilefni af 110 ára afmæli félagsins. Mikið var um dýrðir í tilefni dagsins og heiðraði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, samkomuna með nærveru sinni. Einnig voru flutt ávörp frá formanni Aftureldingar, bæjarstjóra og fulltrúum UMSK, UMFÍ og ÍSÍ. Hafsteinn Pálsson strýrði fundinum með mikilli prýði.

Afturelding sæmdi tvo einstaklinga gullmerki félagsins við þetta tilefni, þá Einar Scheving og Matthías

Í umsögn um Einar Scheving segir:
Einar hefur verið aðstoðarmaður karlaliðs Aftureldingar í handknattleik í um aldarfjórðung og sinnt hlutverki sínu af einstakri samviskusemi. Á þessum  tíma hefur hann vart misst úr æfingu eða leik með liðinu.  Einar  hefur ferðast með því innanlands sem utan og er svo sannarlega einn af hópnum á hverjum tíma, jafnt í blíðu sem í stríðu. Trúmennska hans og vinátta við félagið er einstök. Án Einars og hans starfa væri Afturelding svo sannarlega fátækara sem félag.

Í umsögn um Matthías Árna Guðmundsson segir:
Matthías eða Matti húsvörður eins og margir þekkja hans eftir áratuga starf við íþróttamannvirkin að Varmá vann árum saman mikið og óeigingjarnt starf af ósérhlífni fyrir Aftureldingu, ekki síst handknattleiksdeildina. Hann var liðsstjóri meistaraflokks karla árum sama, m.a. þegar Afturelding varð þrefeldur meistari fyrir 20 árum.  Matthías var vakinn og sofinn yfir liðinu árum saman, alltaf boðinn og búinn, til að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu liðinu svo að leikmenn og þjálfarar gætu einbeitt sér að því sem þá skipti mestu máli.

Einar tók á móti gullmerkinu í Hléagarði í gær og risu gestir úr sætum til að hylla kappann sem hefur reynst félaginu ómetanlegur. Matthías átti ekki heimagengt vegna veikinda en Böðvar Páll Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar í handbolta og barnabarn Matthíarsar, tók við gullmerkinu fyrir hans hönd.

Mynd/Mosfellingur