Unnið að viðmiðum fyrir íþróttastarfið

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Stjórnvöld vinna hörðum höndum að leiðbeinandi viðmiðum um íþrótta- og æskulýðsstarf í skugga samkomubanns og tilheyrandi takmarkana sem í þeim felst.

Forsvarsfólk ÍSÍ, UMFÍ og fleiri félagasamtaka fundaði um mótun viðmiðanna í gær með þeim Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Páli Magnússyni ráðuneytisstjóra, Óskari Þór Ármannssyni, sérfræðingi og starfsfólki ráðuneytisins.

Íþróttahreyfingin leggst á eitt við að koma vangaveltum og fyrirspurnum frá sambandsaðilum og aðildarfélögum inn í þessa vinnu.

Málið er flókið úrvinnslu, en samhugur er um að íþróttahreyfingin, forsvarsmenn sambandsaðila og aðildarfélaga, þjálfarar og forráðamenn iðkenda, fái leiðbeiningar sem eru til þess fallnar að hefta eins og mögulegt er útbreiðslu COVID-19 veirunnar og á sama tíma að halda úti starfsemi undir þeim forsendum sem gefnar hafa verið út.

Við hjá Aftureldingu vinnum að því að skipuleggja íþróttastarf félagsins upp á nýtt miðað leiðbeiningar frá Almannavörnum. Búast má við breytingum á æfingatímum vegna þessa en aðeins 100 manns mega vera samankomnir í íþróttamiðstöðinni á sama tíma. Nánari upplýsingar um æfingar verða gefnar út þegar nær dregur en samkvæmt tilmælum landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna ríkislögrelgustjóra er ekki talið ráðlagt að gera ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir leik- og grunnskólabörn íþrótta- og ungmennafélaga fari af stað aftur fyrr en mánudaginn 23. mars 2020.

Finna má nánari upplýsingar um stöðuna á heimasíðu Ungmennahreyfingar Íslands.