Aðalfundi Aftureldingar lokið.

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Aðalfundur Aftureldingar fór fram miðvikudaginn 25. mars s.l. 
Á fundinum kom fram að innra starf gekk vel á árinu 2014 hjá þeim 10 deildum er mynda félagið og fjölbreytileika þess. Á árinu var sérstaklega unnið í því að fá stjórnendur deildanna til þess að vinna saman, virða starf hvers annars, kynnast og skapa samheldni í félaginu. Alltaf má samt gera betur í þeim efnum enda flókið samspil deilda og samstarfs mismunandi sjálfboðaliða í stóru félagi. Í þessu tilliti voru verklagsreglur varðandi snertifleti deilda við skrifstofu félagsins skýrðar upp. Uppgjör á milli deilda og aðalstjórnar var leiðrétt og lagfært til þess að færa bókhaldið nær raunveruleikanum, varðandi gamlar skuldir á milli deilda við aðalstjórn. Afskrifaði þannig aðalstjórn skuldir deilda að stærstum hluta og borgaði öðrum sem áttu inni hjá aðalstjórn. Um áramót var einnig lokið uppgjöri á milli deilda úr Nora kerfinu sem safnast hafði upp í nokkur ár varðandi systkinaafslátt og fjölgreinaafslátt. Er afsláttur þessi nú uppgerður milli deilda. Á árinu náðist sá áfangi að Nora, skráningakerfi iðkenda félagsins beintengdist íbúagátt Mosfellsbæjar og geta nú foreldrar sem skrá barn sitt í íþróttir sótt í leiðinni beint um frístundastyrk fyrir barn sitt til bæjarins með rafrænum hætti. Þetta leiðir til þess að leiðréttingum gjaldkera deilda í kerfinu hefur snarfækkað og innheimta æfingagjalda hefur stórlagast. Settir voru upp upplýsingaskjáir í anddyri íþróttahússins að Varmá og á gangi Lágafellsskóla þar sem upplýsingar úr starfi félagsins koma fram fyrir iðkendur og foreldra. Vinnuhópar voru stofnaðir, bæði mannvirkjanefnd og búninganefnd, sem skiluðu mjög góðu starfi. Óli Valur Steindórsson var kjörinn fulltrúi aðalstjórnar í vinnuhóp bæjarins sem skoðar möguleika á fjölnota íþróttahúsi í Mosfellsbæ. Allar deildir flokkaíþrótta eru nú komnar í samskonar keppnisbúningi í keppnum sem félagið tekur þátt í sem ekki hefur verið áður. Á árinu æfðu rúmlega eitt þúsund börn og unglingar með félaginu auk sjö meistaraflokka í flokkaíþróttum. Því þurfti að koma æfingum um 1.600 iðkenda fyrir í þeim sölum og völlum sem eru að Varmá og í Íþróttamiðstöðinni Lágafelli sem var ekki auðvelt verk. Mikil vinna er unnin í sjálfboðaliðsstarfi hjá félaginu og margir tilbúnir að leggja hönd á plóginn við mótahald, fjáraflanir og margvísleg stjórnarstörf. Okkur telst til að sjálfboðaliðar sem eru virkir í starfi fyrir félagið og deildir þess séu a.m.k. 450 talsins. Eru þarna oft ótrúlega margar vinnustundir sem sumir einstaklingar leggja fram fyrir félagið sitt. Fyrir það ómetanlega starf er hér með þakkað enda væri starfið í félaginu ekki framkvæmanlegt án þeirra nema með miklum tilkostnaði. Sérlega er ánægjulegt að sjá hve margir iðkendur úr félaginu voru kallaðir til þess að taka þátt í landsliðsverkefnum á árinu. Að félagið eigi nú atvinnumann í knattspyrnu á erlendri grundu sýnir okkur að vel er haldið á málum í yngriflokkastarfi félagsins og hversu mikilvægt það er, en Axel Andrésson er nú á atvinnumannasamningi hjá Reading félaginu Bretlandi. S.l. haust var tekið í notkun fjölnota íþróttahús sem hýsir fimleika og bardagaíþróttir félagsins. Gríðarlegur munur er á að hafa fengið þessi nýju húsakynni og hafa skráningar í þessar íþróttagreinar tvöfaldast við að fá þessa sérhæfðu aðstöðu fyrir þessar íþróttagreinar. Hér ber að þakka sérstaklega bæjarstjórn og öllum þeim sem komu að bygginu þessa frábæra mannvirkis sem klárlega hefur elft starf félagsins eins og iðkendatölur sýna og aukið þannig þátttöku barna okkar í íþróttum og heilbrigðu tómstundastarfi sem hlýtur að vera markmið með byggingu slíkra mannvirkja. Á árinu náðu þrjár deildir félagsins að gera samning um styrk frá tveim fjármálastofnunum sem er í raun mjög sjaldgæft að náist hjá félögum. Var þarna um að ræða samninga við Íslandsbanka og Landsbankann sem styrkja nú starf knattspyrnudeildar, handboltadeildar og blakdeildar sem eru stærstu hópíþróttadeildir félagsins. Þessum áfanga ber að fagna og þakka ber öllum þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem lagt hafa félaginu og deildum þess lið á árinu. Án styrkja yrði starfið ekki nærri því eins öflugt og það er. Sem dæmi má nefna að á launaskrá félagsins voru á síðasta ári rúmlega 100 manns í misstórum stöðugildum sem segir samt sitt um umfang starfsins sem unnið er og hve stór vinnustaður félagið er. Af íþróttaafrekum ársins 2014 hjá félaginu ber helst að nefna að mfl. karla í handknattleik varð deildarmeistari í 1. deild vorið 2014 og komu strákarnir svo inn í úrvalsdeildina með miklum látum s.l. haust og eru nú þar á meðal efstu liða. Meistaraflokkur kvenna í blaki gerði sér lítið fyrir og varð deildar og Íslandsmeistari í blaki um vorið. Íslandsmeistaratitlar komu í hús í einstaklingsíþróttum í félaginu á árinu og í yngri flokkum í flokkaíþróttum félagsins. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu lék í sumar í 2. deild karla og stúlkurnar náðu að halda sér uppi í Pepsídeild þeirra bestu. Þar eru landsliðskonur í U17 og U19 ungmennaliðum sem eflaust eiga eftir að komast í A- landsliðið okkar á næstu árum eins efnilegar og þær eru. Stjórn Aftureldingar vill færa starfsfólki Aftureldingar og íþróttamiðstöðva þakkir fyrir vel unnin störf. Við viljum einnig þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komið hafa að störfum fyrir félagið á einn eða annan hátt, því án þeirra væri ekki gerlegt að halda úti svona miklu og öflugu starfi sem raun ber vitni.
Á aðalfundinum urðu stjórnarskipti þegar Guðjón Helgason formaður, Auður Gunnarsdóttir varaformaður, Hekla Klemenzdóttir gjaldkeri og Lára Berglind Helgadóttir létu af störfum eftir margra ára starf. Nýjir stjórnarmenn sem gáfu kost á sér og voru kosin á aðalfundinum eru þau Dagný Kristinsdóttir formaður, Ólafur Thoroddsen, Birna Kristín Jónsdóttir og Einar Grétarsson. Auk þeirra sitja svo áfram í stjórninn Geirarður Long, Anna Sigurðardóttir og Eymundur Sigurðsson.
Á fundinum voru veittar viðurkenningar til sjálfboðaliða sem lagt hafa félaginu til ómælda vinnu með sjálfboðaliðsstarfi sínu í mörg ár.
Bronsmerki fengu þau: Dagný Kristinsdóttir badmintondeild Ellen Rut Ingimundardóttir taekwondodeild Ingólfur Garðarsson knattspyrnudeild Jón Þór Eyjólfsson knattspyrnudeild Jónas Aðalsteinsson sunddeild Kjartan Óskarsson knattspyrnudeild Richard Már Jónsson taekwondodeild Sigurður Rúnar Magnússon knattspyrnudeild Valdimar Léo Friðriksson aðalstjórn Þórey Björk Einarsdóttir blakdeild.
Silfurmerki fengu þau: Auður Gunnarsdóttir aðalstjórn Bjarki Már Sverrisson knattspyrnudeild Emil Viðar Eyþórsson knattspyrnudeild Friðrik Már Gunnarsson knattspyrnudeild Geirardur Long knattspyrnudeild Gylfi Dýrmundsson knattspyrnudeild Halldóra Björnsdóttir knattspyrnudeild Hekla Klemenzdóttir aðalstjórn Sigurbjörn Grétar Eggertsson blakdeild
Að lokum fékk svo Guðjón Helgason fráfarandi formaður gullmerki félagsins fyrir góð störf í þágu félagsins um áratuga skeið.
Áfram Afturelding!
Indriði Jósafatsson framkvæmdastjóri.