Íþróttamenn ársins!

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Uppskeruhátíð Aftureldingar fór fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu að Varmá s.l. laugardag. Fyrr um morguninn var opið hús og íbúum boðið að koma og prófa fimleika, karate og taekwondo hjá deildum í nýja fimleika- og bardagahúsinu. Eftir hádegi var svo komið að sjálfri Uppskeruhátíðinnni.
Jökull Júlíusson úr Kaleo opnaði hátíðardagskránna með flottum söng og börn á aldrinum 11-16 ára sem deildir tilnefndu til viðurkenninga fyrir mætingu og mestu framfarir fengu viðurkenningu sína. Því næst var komið að því að afhenda sérstaka bikara sem veittir eru af félaginu og deildum þess:
Gunnillubikarinn er veittur stigahæstu konu í frjálsum íþróttum hjá félaginu. Bikarinn í ár hlaut Erna Sóley Gunnarsdóttir. Veitt voru sérstök hvataverðlaun frá aðalstjórn, fyrir dugnað og vel unnin störf á síðasta starfsári. Þau hlutu Dagný Kristinsdóttir og Jóhannes Jónsson.
VinnuþjarkurAftureldingar. Viðurkenning og þakklætisvottur fyrir áralangt farsælt starf fyrir Aftureldingu. Vinnuþjarkur Aftureldingar 2014 var kjörinn af aðalstjórn Grétar Eggertsson stjórnarmaður í blakdeild.
Starfsbikar UMFÍ, fyrir gott starf deildar. Badmintondeild Aftureldingar hlaut þá viðurkenningu fyrir góðan rekstur og þróttmikið starf í deildinni á síðasta ári.
Hópbikar UMSK. Hópbikarinn er veittur þeim hópi sem skarað hefur fram úr á árinu. Það ætti ekki að koma á óvart að bikarinn hlýtur að þessu sinni Íslandsmeistar kvenna í blaki.
Þá var komið að íþróttakörlum og íþróttakonum deilda félagsins. En þau sem voru tilnefnd af stjórnum deilda voru jafnframt í kjöri til Íþróttakarls og Íþróttakonu Aftureldingar 2014. Blakmaður Aftureldingar, Ismar Hadziredzepovic Blakkona Aftureldingar, Zaharina Filipova Filipova. Frjálsíþróttamaður Aftureldingar, Gunnar Eyjólfsson. Frjálsíþróttakona Aftureldingar, Guðlaug Bergmann Sigfúsdóttir. Sundmaður Aftureldingar, Bjartur Þórhallsson. Sundkona Aftureldingar, Bjarkey Jónasdóttir. Taekwondomaður Aftureldingar, Arnar Bragason. Taekwondokona Aftureldingar, María Guðrún Sveinbjörnsdóttir. Karatekona Aftureldingar , Telma Rut Frímannsdóttir. Handboltakona Aftureldingar, Hekla Daðadóttir. Handboltamaður Aftureldingar, Örn Ingi Bjarkason. Knattspyrnumaður Aftureldingar, Arnór Breki Ásþórsson. Knattspyrnukona Aftureldingar, Hrefna Guðrún Pétursdóttir.
Úr þessum föngulega hópi íþróttafólks sem stjórnir deilda tilnefndu til kjörs á sæmdarheitinu Íþróttamaður Aftureldingar og Íþróttakona Aftureldingar útnefndi svo aðalstjórn þau Örn Inga Bjarkason og Zaharinu Filipovu Filipovu íþróttamenn félagsins 2014.
Óskar stjórn félagsins þeim innilega til hamingju með útnefninguna.
Ljósmynd: Raggi Óla.
Texti: ij.