Samstarfssamningur við Mosfellsbæ undirritaður

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Á fundi bæjarráðs þann 11. október var bæjarstjóra heimilað að undirrita samstarfssamning Mosfellsbæjar og Ungmennafélagsins Aftureldingar vegna áranna 2018-2022. Meginmarkmið samningsaðila er að tryggja öflugt og fjölbreytt íþróttastarf í Mosfellsbæ, bjóða börnum og unglingum upp á skipulagt íþróttastarf og hlúa að keppnis- og afreksíþróttafólki.

Skrifað var undir samninginn á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar þann 15. október. „Það er mjög mikilvægt að nú liggi fyrir samningur milli Aftureldingar og Mosfellsbæjar og samningsaðilar hafa þá trú að þessi samningur verði lyftistöng fyrir íþróttalífið í Mosfellsbæ,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

„Samkvæmt samningnum er nú lagt meira fé til að efla bæði barna- og unglingastarf en einnig hlúð að keppnis- og afreksíþróttafólki innan félagsins. Þá liggur fyrir frekari uppbygging á íþróttasvæðinu við Varmá, sem er bygging fjölnota íþróttahúss.“

Við sama tilefni sagði Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar það afar ánægjulegt að nýr og endurbættur samningur Aftureldingar og Mosfellsbæjar væri í höfn. „Það er ákaflega mikilvægt fyrir íþróttafélag eins og Aftureldingu að hafa öflugan bakhjarl eins og Mosfellsbær svo sannarlega er. Við finnum fyrir miklum stuðningi frá sveitarfélaginu og væntum mikils af samstarfinu næstu fjögur árin.”