Andri Freyr og María Guðrún íþróttafólk Aftureldingar 2018

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Andri Freyr Jónasson og María Guðrún Sveinbjörnsdóttir eru íþróttafólk Aftureldingar árið 2018. Þetta var kunngert á uppskeruhátíð félagsins sem fram fór í kvöld í Hlégarði. Saman voru komin margt af okkar fremsta íþróttafólki og var íþróttafólk úr flestum deildum heiðrað fyrir frábæran árangur á árinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Andri og María fá þennan heiður.

Í umsögn um Andra Frey segir: Andri Freyr spilaði stórt hlutverk í liði Aftureldingar sem varð deildarmeistari í 2.deildinni á nýliðnu tímabili, hann var markahæsti leikmaður deildarinnar og skoraði meðal annars tvö mörk í síðasta leik sumarsins.  Í þeim leik var allt undir því spennan á toppi deildarinnar var griðarleg. Andri Freyr skoraði 21 mark í 18 leikjum auk þess sem hann skoraði 5 mörk í 3 bikarleikjum. Þjálfarar og fyrirliðar í 2.deildinni völdu Andra Frey sem besta leikmann deildarinnar og þá var hann valinn leikmaður ársins af þjálfurum og meistaraflokksráði Aftureldingar. Andri Freyr hefur alla tíð leikið fyrir félagið, hann lagði ákaflega hart að sér á síðasta tímabili og tók miklum framförum.

Í umsögn um Maríu Guðrúnu segir: María Guðrún er fremsta Taekwondokona ársins, og var fulltrúi TKÍ í vali á íþróttamanni ársins árið 2017. Fyrir utan að vera máttarstólpi í landsliðsstarfinu, þar sem hún sannkallaður leiðtogi í landsliði Íslands í poomsae, sér hún um poomsae þjálfun hjá fjölmörgum félögum og hefur þar stóreflt þjálfunina með fagmennsku sinni og einstöku viðmóti. María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum í ár fyrir Íslands hönd, og bar þar hæst keppni á heimsmeistaramótinu í Taiwan í nóvember þar sem hún lenti í 9.-16. sæti í erfiðum flokki. María Guðrún keppti á Opna enska mótinu sl. vor og vann þar til gullverðlauna bæði í bardaga og í poomsae. Hún vann til brons- og silfurverðlaun á NM í Finnlandi síðasta vetur. María Guðrún er Íslandsmeistari í poomsae auk þess að vera margfaldur bikarmeistari í bæði poomsae og bardaga.
Það eru fáir aðilar á Íslandi í taekwondo sem komast með tærnar þar sem María Guðrún hefur hælana og fyrir utan að vera yfirburða keppnismanneskja þá tekur hún mjög virkan þátt í öllu starfi síns félags og TKÍ, og leggur þannig einstaklega mikið til uppbyggingar á íþróttinni á Íslandi.

Fjölmörg önnur verðlaun voru veitt í kvöld. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir helstu verðlaunahafa:
Gunnillubikar – veitt stigahæstu konunni í frjálsum íþróttum: Arna Rut Arnarsdóttir
Hópbikar UMSK: 3. flokkur karla í knattspyrnu sem varð Íslandsmeistari í haust.
Starfsbikar UMFÍ: Meistaraflokksráð karla í handbolta
Hvataverðlaun: Þjálfarar körfuknattleiksdeildar Aftureldingar
Vinnuþjarkur Aftureldingar: Ása Dagný Gunnarsdóttir
Samstarfsviðurkenning: Mosfellingur fyrir frábæran stuðning og samstarf á liðnum árum.

Mikil gleði var í Hlégarði í kvöld. Jólastjarnan 2018, Þórdís Karlsdóttir, kom fram og söng við mikið lófatak gesta. Einnig kom fram rappsveitin 2SevenO sem flutti lagið „Við erum 270“ sem var viðeigandi á þessum viðburði.

Áður en form­lega dag­skrá hófst minnt­ist Birna Krist­ín Jóns­dótt­ir, formaður Aft­ur­eld­ing­ar, Kol­beins Arons Arn­ar­son­ar, hand­knatt­leiks­markv­arðar, sem var bráðkvadd­ur á heim­ili sínu í Vest­manna­eyj­um á dög­un­um.  Kol­beinn Aron lék með meist­ara­flokksliði Aft­ur­eld­ing­ar leiktíðina 2017 – 2018. Gest­ir risu einnig úr sæt­um og vottuðu minn­ingu Kol­beins Arons virðingu með stund­arþögn.

Afturelding vill koma á framfæri heillaóskum til allra vinningshafa.

Áfram Afturelding!