Dagný endurkjörin formaður Aftureldingar

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Aðalfundur Ungmennafélagsins Aftureldingar fór fram fimmtudaginn 30. mars síðastliðinn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Á fundinum var ársskýrsla Aftureldingar fyrir starfsárið 2016 kynnt ásamt ársreikningi félagsins. Hvoru tveggja var samþykkt samhljóða meðal fundarmanna. Dagný Kristinsdóttir var endurkjörin sem formaður Aftureldingar en hún tók við formennsku í félaginu fyrir tveimur árum.

Breytingar urðu á aðalstjórn félagsins. Einar Grétarsson og Ólafur Thoroddsen gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Kjartan Reinholdsson og Sigurður Rúnar Magnússon koma inn í aðalstjórn í þeirra stað. Einari og Ólafi eru þökkuð fyrir góð störf í þágu félagsins á undanförnum árum.

Aðalstjórn Aftureldingar 2017-2018:
Dagný Kristinsdóttir, formaður
Anna Fríða Magnúsdóttir
Birna Kristín Jónsdóttir
Geirarður Long
Kjartan Reinholdsson
Kristrún Kristjánsdóttir
Sigurður Rúnar Magnússon

Viðurkenningar
Hefð er fyrir því að veitt séu viðurkenningar fyrir störf í þágu félagsins á aðlfundi Aftureldingar. Ekki var horfið frá þeirri hefð í ár og hlutu 18 einstaklingar brons- eða silfurmerki Aftureldingar í ár. Framlag þessara einstaklinga til Aftureldingar er ómentanlegt. Ljóst er að án sjálfboðaliða væri ekki hægt að halda úti því frábæra starfi sem deildir félagsins inna af hendi á ári hverju.

Eftirtaldir einstaklingar hlutu brons- eða silfurmerki Aftureldingar í ár:
Brons:
Guðmundur Birgisson handbolti
Sigurjón Gunnlaugsson handbolti
Alma Ragnarsdóttir karate
Anna Olsen karate
Ása Dagný Gunnarsdóttir þorrablótsnefnd
Bylgja Bára Bragadóttir þorrablótsnefnd
Helga Sævarsdóttir þorrablótsnefnd
Jón Smári Pétursson þorrablótsnefnd
Oddný Þóra Logadóttir þorrablótsnefnd
Svanþór Einarsson þorrablótsnefnd
Thelma Dögg Haraldsdóttir þorrablótsnefnd
Vilborg Jónsdóttir þorrablótsnefnd
Silfur:
Þórey Björg Einarsdóttir blak
Steinn Guðni Einarsson blak
Helena Sveinbjarnardóttir handbolti
Ingimundur Helgason handbolti
Leifur Guðjónsson handbolti
Arnar Þór Björgvinsson karate
Valdimar Leó Friðriksson aðalstjórn

Aðstöðumál
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, kvaddi sér hljóðs á fundinum. Bæjarstjóri gerði að sérstöku umtalsefni aðstöðumál og stefnubreytingu félagsins varðandi fjölnota íþróttahús. Í máli bæjarstjóra kom fram að starfshópur bæjaryfirvalda og félagsins hefði á sínum tíma lagt mikla vinnu í að skoða málið og komist að þeirri niðurstöðu að reisa fjölnotaíþróttahús í fullri stærð að Varmá og að kostnaður við það myndi nema um einum milljarði króna. Á þeim tímapunkti réði bærinn ekki við þannig fjárfestingu og því var farið að skoða hugmyndir um einkaframkvæmd. Við það fyrirkomulag voru bæði kostir og gallar. Megingallar væru að Afturelding hefði einungis afnot af 30-40% af tímum í húsinu og að gervigrasvöllurinn færi undir húsið.

Lítið gerðist í málinu og um áramót hafði bæjarstjóri samband við formann félagsins til að heyra hvort félagið stæði enn að baki fyrri stefnu. Upplýsti formaður þá um að innan félagsins hefði verið umræða um hugsanlega stefnubreytingu og úr varð að félagið kynnti breytta stefnu fyrir bæjarstjóra í janúar sem fela í sér að byggja frekar fjölnota íþróttahús í 50% stærð. Bæjarstjóri ræddi mögulegar útfærslur og nefndi að hugsanleg kostnaðaráætlun fyrir nýtt gervigras og lítið knatthús gæti verið u.þ.b. 300 milljónir en nákvæm kostnaðargreining stendur yfir og tíðindi að vænta fljótlega.