Sigurður Rúnar sæmdur

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Á afsmælishátíð UMSK var Sigurður Rúnar gjaldkeri Aftureldingar sæmdur gullmerki ÍSÍ.
Á heimasíðu ÍSÍ segir um gullmerkið ‘Gullmerki ÍSÍ má veita þeim einstaklingum, sem innt hafa af höndum skipulags-, stjórnar- eða þjónustustörf fyrir íþróttasamtökin um lengri tíma’.

Sigurður Rúnar Magnússon er einn mikilvægasti hlekkurinn í starfsemi Aftureldingar. Siggi eins og hann er öllu jafna kallaður hefur komið víða við í fjármálum félagsins svo eftir sé tekið. Hann lyfti grettistaki á sínum tíma þegar hann var gjaldkeri BUR í knattspyrnu og stýrði þeim á góðan stað, hann var einnig gjaldkeri fyrir karatedeildina og hefur verið gjaldkeri aðalstjórnar síðan 2018. Aðalstjórn er sannarlega heppin að hafa Sigga og þetta er eitt mikilvægasta en líklega vanþakklátasta starf félagsins.

Sem gjaldkeri aðalstjórnar hefur hann nokkrum sinnum þurft að setjast sem “gestagjaldkeri” í ráðum og deildum sem eiga erfitt uppdráttar og undantekningarlaust tekist að koma þeim á beinu brautina. Siggi hefur verið lykilmaður félagsins þegar kemur að samningum við Mosfellsbæ síðustu tvo samninga. Einnig er Siggi óþreytandi í fjáröflunum og fleiru í flokkum barna sinna í gegnum tíðina og um síðustu helgi á handboltamóti á Akureyri var hann í hlutverki bílstjóra, fararstjóra, DJ og foreldris og eflaust fleirum.

Siggi hefur sterkar skoðanir og er fastur fyrir en líklega enginn sem þekkir fjármál Aftureldingar betur en hann og kosturinn við Sigga er að þú gengur að því vísu að fá heiðarleg svör.

Til hamingju Sigurður Rúnar og takk fyrir þitt framlag